KR markar stefnu fyrir knattspyrnu kvenna

Sonja Hlín Arnarsdóttir • jún. 19, 2024

Stjórn knattspyrnudeildar KR hefur síðustu mánuði verið að vinna að nýrri stefnu fyrir kvennastarf deildarinnar. Árangur félagsins í meistaraflokki hefur ekki verið ásættanlegur sl. ár fyrir stórt félag eins og KR og er ný stefnumótun, byggð á fimm ára áætlun, hluti af viðbrögðunum við því. Markmiðið er að byggja upp starf sem er leitt af langtímahugsun og styrkja þær stoðir sem kvennastarfið byggir á, sem og nýta meðbyr stofna og strauma sem nú eiga sér stað í kvennaboltanum víðs vegar um heiminn.

Kvennaknattspyrnan hefur tekið miklum breytingum síðustu ár, bæði innan vallar sem utan. Vinsældir hennar hafa aukist gríðarlega sem sést vel á mikilli aukningu í áhorfi í sjónvarpi, margfalt meiri aðsókn á leiki, áhuga fjölmiðla og síðast en ekki síst á því fjármagni sem hefur komið inn í rekstur liða. Sem dæmi um aukinn áhuga á kvennaboltanum má nefna að kvennalið Arsenal muna leika alla heimaleiki sína á Emirates vellinum á næsta tímabili. Einnig hefur eignarhald kvennaliða breyst og hafa fjárfestingarsjóðir fjárfest í liðum á stærstu mörkuðunum en á sama tíma tengt liðin við mikilvæg málefni í þeim samfélögum sem þau tilheyra.

Áunnir styrkleikar kvennaliða KR eru margir og þeir munu ekki hverfa. Vinnan við stefnuna tekur mið af þeim en einnig er hugað að því hvernig hægt er að styðja við liðið fjárhagslega svo það geti verið sjálfstæð og sterk eining. Nú þegar hefur fjárhagslegt bakland kvennaliðs KR til næstu fimm ára verið tryggt með öflugu framlagi frá ýmsum bakhjörlum félagsins. Þetta fjármagn verður ekki eingöngu nýtt til að styrkja liðið með leikmannakaupum heldur einnig til að bæta aðstöðu liðsins, auka fræðslu og þekkingu á mikilvægum þáttum eins og næringarfræði, eflingu styrktarþjálfunar og sjúkraþjálfunar fyrir liðið sem og að hlúa að félagslegum þáttum.

Stórbætt aðstaða sem er framundan og innkoma nýrra ráðninga hjá félaginu mun einnig styrkja stefnuna til muna. Þessar breytingar munu styrkja félagið í heild sinni.


Við horfum því jákvæð fram á við og teljum að kvennastarfið og kvennalið félagsins eigi bjarta framtíð fyrir höndum.

Share by: