HELGA HARALDSDÓTTIR LÁTIN
11. október 2024

Látin er í Hveragerði Helga Haraldsdóttir íþróttakennari, fremsta sundkona KR á síðustu öld. Helga fæddist 7. júlí árið 1937. Hún hóf æfingar og keppni hjá sunddeild KR árið 1951 og varð fljótt fremsta fremst íslenskra kvenna í skriðsundi og baksundi. Á árunum 1953-1959 setti hún alls 28 Íslandsmet og náðu þau yfir flestar keppnisgreinar skriðsunds og baksunds. Eftir að Helga hætti keppni vorið 1959 var hún í nokkur ár þjálfari hjá sunddeild KR. Jafnframt sneri hún sér að sjósundi og synti m.a. Viðeyjarsund og Helgusund úr Geirshólma í Hvalfirði (Harðarhólma).
Helga lauk námi frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni og framhaldsnámi frá Íþróttaháskólanum í Osló. Hún starfaði lengi vel sem sundkennari í Reykjavík og Kópavogi. Frá 1990 gerðist hún starfsmaður Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, þar sem hún lauk starfsferli sínum. Helga lést þann 28. sept. sl. 87 ára að aldri.
KR sendir eiginmanni Helgu, Agli Gústafssyni, og fjölskyldu þeirra hugheilar samúðarkveðjur.
Helga verður jarðsungin frá Hveragerðiskirkju þann 15. okt. nk.