Gull í hús á alþjóðlegu móti

Um liðna helgi fór fram alþjóðlegt taekwondomót í Slóveníu. Keppendur voru 800 talsins og þeirra á meðal margt fremsta keppnisfólk Evrópu. Íslenska landsliðið í sparring var meðal þátttakenda, og einn þeirra er Vesturbæingurinn Guðmundur Flóki Sigurjónsson. Með þeim í för var nýr landsliðsþjálfari, Bretinn Rich Fairhurst. 


Guðmundur Flóki færði sig nýlega upp í -78 kg flokk unglinga og keppti í honum um helgina. Í átta manna úrslitum sigraði Guðmundur Flóki sterkan keppanda frá Ungverjalandi 2-0. Í undanúrslitum var það svo öflugur keppandi frá Króatíu sem varð að láta í minni pokann 2-1 fyrir Guðmundi Flóka, sem gerði sér svo lítið fyrir og sigraði einnig keppanda frá Bosníu í úrslitum 2-0 og landaði þar með gullinu. 


Guðmundur Flóki er efnilegasti junior keppandi landsins og sá Íslendingur sem unnið hefur flestar alþjóðlegar junior E-medalíur, en eftirsóttustu mótin í unglingaflokki eru E-mót, sem gefa stig á Evrópulistanum. Ásamt því að vera fremstur í sínum flokki á Íslandi er Guðmundur Flóki einn af þjálfurum taekwondodeildar KR.

Guðmundur er frábær fyrirmynd fyrir unga taekwondo iðkendur.

Share by: