Guðbjörg Vala sigraði á Lokamóti BTÍ

17. maí 2024

Meirihluti verðlaunahafa úr KR

Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir sigraði á lokamóti mótaraðar BTÍ, sem fram fór í Íþróttahúsi Hagaskóla 15. maí. Guðbjörg Vala sigraði Aldísi Rún Lárusdóttur örugglega í úrslitum. Þetta er fyrsta stóra mótið í efsta flokki sem Guðbjörg vinnur en hún er 13 ára. Helena Árnadóttir varð þriðja og Guðrún Gestsdóttir fjórða. Kristín Ingibjörg Magnúsdóttir og Magnea Ólafs, BM höfnuðu í 5.-6. sæti.

Magnús Gauti Úlfarsson, BH lagði KR-inginn Norbert Bedo í oddalotu í úrslitum í karlaflokki. Ellert Kristján Georgsson varð þriðji og Pétur Gunnarsson fjórði. Í 5.-8. sæti höfnuðu Eiríkur Logi Gunnarsson, Magnús Jóhann Hjartarson, Víkingi, Skúli Gunnarsson og Þorbergur Freyr Pálmarsson, BH.

KR átti 5 af 6 verðlaunahöfum í kvennaflokki og 6 af 8 í karlaflokki.

Til keppni var boðið 8 efstu leikmönnum í mótaröðinni að loknum þremur mótum vetrarins.