Látinn er eftir harða glímu við Alsheimersjúkdóminn einn af bestu sonum KR, Ellert B. Schram, 85 ára að aldri. Ellert fæddist 10. október 1939. Hann hóf ungur að aldri að æfa knattspyrnu með KR. Hann átti ekki langt að sækja áhugann á fótboltanum, enda faðir hans Björgvin einn af bestu leikmönnum og forystumönnum KR á sínum tíma. Fljótlega kom í ljós að þarna var mikið efni á ferð og hann varð strax lykilmaður í sínum aldursflokki, sem var mjög sigursæll og skilaði mörgum titlum til félagsins. Sína fyrstu leiki í meistaraflokki lék hann sumarið 1957, og frá 1958 var hann fastur maður í einu sigursælasta liði sem KR hefur átt í fótboltanum “Gullaldarliðinu” eins og við KR ingar köllum það.
Í upphafi ferlisins lék hann sem framherji og skoraði mikið af mörkum. Síðar færði hann sig aftar á völlinn í stöðu miðframvarðar. Ellert var geysilegur keppnismaður og þoldi ekki að tapa. Hann var lengst af ferli sínum fyrirliði meistaraflokks og a.m.k seinni hluta ferilsins var hann einnig vítaskyttan og þau voru ekki mörg vítin sem þá fóru forgörðum. Hann fór fyrir sínum mönnum með miklum baráttuvilja og stöðugri hvatningu. Góður félagi jafnt í blíðu sem stríðu.
Ellert varð 5 sinnum Íslandsmeistari með meistaraflokki: 1959, 1961, 1963, 1965 og 1968. Þá varð hann 7 sinnum bikarmeistari: 1960, 1961, 1962, 1963, 1964, 1966 og 1967, og er það met sem hann á enn með Bjarna Felixsyni félaga sínum. Auk þessa varð hann nokkrum sinnum Reykjavíkurmeistari, haustmeistari og sigurvegari í meistarakeppni KSÍ.
Seinast lék Ellert með meistaraflokki sumarið 1971, þegar „endurkoma þingmannsins“ átti stóran þátt í að bjarga KR frá falli í 2. deild. Ellert lék alls 272 leiki með meistaraflokki og skoraði í þeim 120 mörk, sem var lengi met fyrir KR. Í Íslandsmótinu (efstu deild) voru leikir hans 126 og mörkin 62, sem var hvort tveggja met fyrir KR á sínum tíma. Hann var næst leikjahæstur KR-inga þegar skórnir fóru á hilluna, á eftir Gunnari Guðmannssyni. Markamet hans stóðu bæði til 2019, þegar Óskar Örn Hauksson bætti þau, sumarið sem KR vann sinn 27. Íslandsmeistaratitil. Óskar lék alls 546 leiki fyrir KR og skoraði 152 mörk. Með 12 stóra meistaratitla er Ellert ásamt Herði Felixsyni næstsigursælasti KR-ingurinn í knattspyrnu frá upphafi á eftir Gunnari Guðmannssyni sem skákar þeim með 9 Íslandsmeistaratitla og 5 bikarmeistaratitla.
Loks lék Ellert 23 A-landsleiki og skoraði í þeim 6 mörk. Hann var fyrirliði 6 sinnum.
En Ellert lék ekki aðeins knattspyrnu fyrir KR. Árið 1965 var handknattleikslið KR í mikilli fallhættu og m.a. var markvarslan höfuðverkur. Þeir leituðu þá til Ellerts um að standa í markinu í þeim leikjum sem eftir voru, sem hann gerði , stóð sig vel, og tókst ásamt félögum sínum að bjarga liðinu frá falli.
Ellert lét einnig mjög til sín taka á félagsmálasviðinu hjá íþróttahreyfingunni. Hann var í stjórn knattspyrnudeildar KR 1960 – 1969, þar af sem formaður 1967 – 1969. Formaður Knattspyrnusambands Íslands – KSÍ var hann 1973 – 1989, eða alls í 16 ár. Í stjórn Knattspyrnusambands Evrópu – UEFA var hann 1982 – 1986 og 1990 – 1994, þar af sem einn af varaformönnunum 1984 – 1986. Loks var hann forseti Íþrótta- og Ólympíusambandsins 1991 – 2006, eða í alls 15 ár. Auk ofangreinds þjálfaði Ellert meistaraflokk karla hjá KR sumarið 1973, og ritstýrði ýmsum KR-blöðum á seinni hluta síðustu aldar, og ekki síst 100 ára afmælisriti KR „Fyrsta öldin“, svo að fleira sé nefnt.
Ellert var kjörinn heiðursformaður KSÍ þegar hann lét af formannsembættinu. Þá var hann útnefndur heiðurfélagi KR árið 2020.
Hvernig sem á allt er litið er ferill hans ótrúlega glæsilegur bæði fyrir KR og íþróttahreyfinguna í heild og það er því með söknuði, þakklæti og virðingu sem KR- ingar kveðja Ellert.
Ertu með góða hugmynd,
eða ábendingu?
Þú getur líka sent okkur
almenna fyrirspurn
- einelti eða kynferðisleg áreitni og ofbeldi