Í gær kvöddum við góðan vin og KR-ing, Bjarna Felixson. Meistaraflokkar KR í knattspyrnu, bæði karla og kvenna, stóðu heiðursvörð þegar kista Bjarna Felixsonar var borin úr kirkjunni. Magnús Ingimundarson, stjórnarmaður Knattspyrnufélags Reykjavíkur skrifaði minningarorð fyrir hönd félagsins. Minningarorðin má lesa hér að neðan.
Í dag kveðja KR-ingar og Vesturbæingar auk annarra Bjarna Felixson. Bjarni ólst upp á Bræðraborgarstígnum svo leiðin í KR var bein í orðsins fyllstu merkingu; niður Bræðraborgarstíginn og Kaplaskjólsveginn að KR. Bjarni lék og æfði knattspyrnu með yngri flokkum KR ásamt bræðrum sínum, Herði og Gunnari, og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik 1956, þá tvítugur að aldri. Hann lék 225 leiki fyrir KR á tímabilinu 1956-1967 og þá yfirleitt í stöðu vinstri bakvarðar. Bjarni var lítríkur og skemmtilegur leikmaður með mikið keppnisskap. Hann var fljótur, ákveðinn og fastur fyrir, ef á þurfti að halda, og gaf sig aldrei. Á þessu Gullaldartímabili KR varð Bjarni fjórum sinnum Íslandsmeistari og bikarmeistari sjö sinnum, sem er líklega met, sem hann deilir með vini sínum Ellert B. Schram.
Bjarni var í liði KR er leikið var gegn Liverpool 1964, en það voru fyrstu Evrópuleikir, sem íslenskt félagslið tók þátt í. Bræðurnir þrír, Bjarni, Hörður og Gunnar, léku fjölda leikja fyrir KR og léku saman landsleik gegn Bretum 1963, en sennilega eru þeir einu þrír bræðurnir í knattspyrnuheiminum sem hafa verið saman í landsliði.
Eftir að keppnisferlinum lauk hélt Bjarni áfram að starfa fyrir félagið sitt. Hann þjálfaði yngri flokka, sat í stjórn knattspyrnudeildar og var formaður hennar árin 1975-1976. Hann sat í stjórn KSÍ 1973 og 1974 og gegndi starfi ritara.
Bjarni fékk snemma áhuga á ensku knattspyrnunni og ungir Vesturbæingar smituðust af eldmóði hans. Þeir máttu gjarnan heimsækja hann á Birkimelinn á laugardögum, fylgjast með lýsingum í breska útvarpinu og forvitnast um úrslitin í enska boltanum. Áhugi Bjarna á ensku knattspyrnunni og íþróttum almennt varð til þess að Bjarni varð með tímanum ástsælasti íþróttafréttamaður landsins.
Að leiðarlokum viljum við KR-ingar þakka Bjarna fyrir samfylgdina, vináttuna og tryggðina við félagið og félagana. Það er eitt sæti autt í laugardagskaffinu vestur í KR-heimili en minningarnar um góðan dreng lifa.
KR-ingar senda fjölskyldu, vinum og ættingjum Bjarna innilegar samúðarkveðjur.
F.h. Knattspyrnufélags Reykjavíkur, Magnús Ingimundarson
Í minningu Bjarna Felixsonar mun Framtíðarsjóður KR útbúa sérstakt minningarskjal um Bjarna Fel sem sent verður til aðstandenda. Þeir sem vilja minnast hans gera það með framlagi í sjóðinn, reikn 133-15-4877, kt. 700169-3919, merkt BFel.
Ertu með góða hugmynd,
eða ábendingu?
Þú getur líka sent okkur
almenna fyrirspurn
- einelti eða kynferðisleg áreitni og ofbeldi