Bjarni Felixson látinn
26. september 2023

Bjarni var fæddur 27. desember 1936.
Bjarni lék knattspyrnu með yngri flokkum KR og í fyrsta skipti með meistaraflokki 1956. Alls lék Bjarni 225 leiki fyrir KR – alla nema þá þrjá síðustu á árunum 1956-1967, þar af voru 93 í Íslandsmótinu. Yfirleitt í stöðu vinstri bakvarðar. Hann varð Íslandsmeistari fjórum sinnum, 1959 (þar átti hann fast sæti í liðinu sem vann alla leikina), 1961, 1963 og 1965. Þá varð hann bikarmeistari 7 sinnum (og er það met sem hann á með Ellerti B. Schram), 1960, 1961, 1962, 1963, 1964, 1966 og 1967. Eina mark sitt skoraði hann í bikarleik 1967, þegar hann jafnaði 3:3 með bylmingsskalla í undanúrslitaleik við Fram á síðustu sekúndum leiksins. Því þurfti að leika annan leik sem KR vann 1:0 , og í framhaldi af því úrslitaleikinn gegn Víkingi 3:0. Það liðu 27 ár þangað til KR vann bikarinn næst, 1994.
Bjarni var þátttakandi í fyrstu Evrópuleikjunum gegn Liverpool 1964, og í flestum Evrópuleikjum á árunum 1965-1967. Þá lék Bjarni alls 6 landsleiki á árunum 1962-1964. Þeir Felix-bræður, Hörður, Bjarni og Gunnar léku fjölda leikja saman fyrir KR en náðu einnig að leika saman fyrir landsliðið gegn Bretum 1963, sem var einstakt afrek
Bjarni sat í stjórn knattspyrnudeildar KR á fyrri hluta áttunda áratuginn, og sem formaður 1975-1976. Þá var hann kjörinn í stjórn KSÍ 1973 og 1974 og gegndi þar starfi ritara.