Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, oft þekktur undir nafninu Tóti Túrbó, er kominn heim í KR og semur við körfuknattleiksdeild KR til næstu tveggja ára. Þetta var tilkynnt á fréttamannafundi á Meistaravöllum fyrir helgi. Við sama tilefni var tilkynnt um framlengingu á samningi KR körfu við Nike á Íslandi til næstu tveggja ára.
Þóri þarf ekki að kynna frekar fyrir KR-ingum né körfuboltaunnendum. Hann er uppalinn í KR, lék með KR upp alla yngri flokka og upp í meistaraflokkinn. Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir KR aðeins 16 ára gamall. Þórir varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari og tvisvar bikarmeistari með KR á árunum 2014-2017.
Þórir hélt út til Bandaríkjanna í háskóla og spilaði með Nebraska á árunum 2017 til 2021. Þórir gekk til liðs við KR vorið 2021 og spilaði með liðinu í úrslitakeppninni það árið. Þórir hóf tímabilið 2021-2022 með KR en á miðju tímabili gekk hann til liðs við Landstede Hammers í Hollandi. Tímabilið eftir spilaði Þórir með Oviedo CB á Spáni og í fyrra gekk Þórir til liðs við Tindastól hér heima. En nú er Þórir kominn aftur heim í KR og semur til næstu tveggja ára.
Þórir er 26 ára gamall og á að baki 29 A-landsleiki fyrir Ísland.
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, leikmaður KR:
“Ég er mjög ánægður að vera ganga aftur til liðs við KR. Hér ólst ég upp og finnst best að vera. Það er verið að byggja upp flott lið af heimastrákum og er ég spenntur að taka þátt í því og þeim verkefnum sem framundan eru. KR er og verður alltaf stærsti klúbbur á Íslandi og ég hlakka til að sjá alla KR-inga í stúkunni í vetur.”
Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari meistaraflokks karla:
"Það hefur verið ákveðið markmið hjá okkur að fá til okkar uppalda KR-inga sem voru að spila annars staðar. Tóti hefur sýnt að hann er einn af albestu leikmönnum deildarinnar og því gríðarlega stórt og mikilvægt fyrir okkur að fá hann heim í KR. Bæði út af hans hæfileikum sem körfuboltamanni og að hann er KR ingur í gegn. Körfuboltalega er hann mjög hæfileikaríkur og fjölhæfur leikmaður sem mun gera mikið fyrir liðið. Ásamt því að ég tel að hann sé á þeim stað á ferlinum að vera leiðtogi í sínu liði og verður hrikalega skemmtilegt að sjá hann aftur í KR-treyjunni."
Egill Ástráðsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR:
“Við hjá körfuknattleiksdeild KR erum gífurlega stolt og ánægð með hafa náð samkomulagi við Þóri. Þórir er eins og allir vita einn besti körfuboltamaður okkar Íslendinga og hann er einn harðasti KR-ingur sem fyrirfinnst. Þannig að það var alveg ljóst að eftir að við náðum markmiðum okkar um að fara beint aftur upp um deild síðasta vor, þá lögðum við mikið kapp á að fá hann til liðs við okkur á ný sem og aðra uppalda KR-inga sem við höfum samið við í sumar.”
KR karfa og Nike til næstu tveggja ára
Á fréttamannafundinum var einnig tilkynnt að KR karfa og Nike á Íslandi hafa framlengt samstarfssamning sinn til næstu tveggja ára. Allir flokkar KR körfu munu spila í Nike búningum næstu tvö árin hið minnsta.
Sjáumst á Meistaravöllum í vetur! Áfram KR!
Ertu með góða hugmynd,
eða ábendingu?
Þú getur líka sent okkur
almenna fyrirspurn
- einelti eða kynferðisleg áreitni og ofbeldi