Kristinn Már Stefánsson er látinn

Kveðja frá körfuknattleiksdeild KR


Kristinn Már Stefánsson,

f. 3. júní 1945, d. 13. sept. 2024

 

Látinn er í Reykjavík, Kristinn Már Stefánsson, 79 ára að aldri. Kristinn var einn af mestu afreksmönnum Körfuknattleiksdeildar KR, en hann lék um árabil með karlaliði félagsins í efstu deild og var einn af lykilmönnum liðsins, sem var ógnarsterkt um árabil á 7. og 8. áratugnum. Þá gegndi hann  líka ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félag sitt KR og fyrir körfuknattleikshreyfinguna.


Kristinn gekk til liðs við Körfuknattleiksdeild KR strax á unglingsárum. Hann var í sigursælum árgangi, sem vann til titla í yngri flokkum félagsins. Hann hóf keppni í meistaraflokki keppnistímabilið 1962-1963, eins og fleiri félagar hans á sama reki, þó þeir hafi ekki verið búnir að ná lágmarksaldri. Kristinn lék alls 335 leiki með mfl. karla í KR á árunum 1963 – 1979 og er enn meðal 10 leikjahæstu leikmanna félagsins í körfuknattleik frá upphafi. Á þessum árum vann hann alls 6 Íslandsmeistaratitla og 6 bikarmeistaratitla fyrir KR og var valinn körfuknattleiksmaður ársins af Körfuknattleikssambandi Íslands (KKÍ) keppnistímabilið 1973-74. Kristinn var hávaxinn og með mikinn stökkkraft og lék í stöðu miðherja. Hann var góður varnarmaður og oft einráður undir körfunni og tók mikið af fráköstum. Einnig var hann mjög skotviss á sínu svæði við körfuna. Karlalið KR lék einnig fjölmarga leiki í Evrópukeppnum á þessum árum og var Kristinn lykilþátttakandi í þeim verkefnum. Hann gegndi einnig ýmsum trúnaðarstörum fyrir félagið og sat m.a. í stjórn Körfuknattleiksdeildar KR í ein 15 ár.

Kristinn var valinn til að leika með fyrsta unglingalandsliði Íslands, sem lék í Evrópukeppni unglingaliða í París haustið 1963. Hann var í byrjunarliði Íslands og mikilvægur hlekkur í árangri liðsins sem sigraði í 2 leikjum af 4 og kom þannig Íslandi óvænt á kortið. Í framhaldi af því var Kristinn valinn í íslenska karlalandsliðið og lék með því samfellt í rúman áratug, 1964 – 1975, alls 34 landsleiki.


Kristinn var einnig valinn til forystustarfa hjá KKÍ, en þar sat hann í stjórn lengst af á árunum 1984 – 1996. Einnig sat hann í landsliðsnefnd KKÍ og var um tíma landsliðsþjálfari. Hann var líka iðinn við að mæta á körfuknattleiki hjá KR og fylgjast með félagi sínu.

Kristinn hlaut gullmerki frá bæði KR og KKÍ, fyrir framlag sitt til körfuknattleiksins.

Körfuknattleiksdeild KR þakkar Kristni Má Stefánssyni fyrir störf sín fyrir félagið og þessa frábæru íþrótt og vottar fjölskyldu hans samúð sína við fráfall hans.


F.h. Körfuknattleiksdeildar KR,

Gísli Georgsson


Share by: