Jón Otti Ólafsson borinn til grafar

Jón Otti Ólafsson

f. 10. júlí 1941, d. 28. feb. 2025


Jón Otti Ólafs­son, prent­ari, körfuknattleiksmaður og KR-ingur lést 28. fe­brú­ar síðastliðinn á Hrafn­istu í Hafnar­f­irði, 83 ára að aldri.


Jón Otti fædd­ist 10. júlí 1941 í Reykja­vík og ólst upp á Vesturgötunni, sem var í miðju gamla KR-hverfisins í Vest­ur­bæn­um. For­eldr­ar hans voru Ólaf­ur Ottós­son (1915-2001) og Vig­dís Jóns­dótt­ir (1918-2014).


Hann stundaði nám við Héraðsskól­ann á Laug­ar­vatni og lauk gagn­fræðaprófi frá Gagn­fræðaskóla Vest­ur­bæj­ar. Hann lauk sveins­prófi í prentiðn frá Iðnskól­an­um í Reykja­vík og stundaði prentiðn hjá prent­smiðjunni Borgar­prenti og síðar prent­smiðjunni Um­slagi og endaði sinn starfs­fer­il þar árið 2012.


Jón Otti var einn af frum­kvöðlum körfu­knattleiks á Íslandi. Hann hóf að leika körfu­knattleik á Laug­ar­vatni 1956 og lék síðan með ÍR, sem var þá með aðsetur í íþróttahúsinu á Landakoti, en flutti sig yfir í KR og lék með félaginu í yngri flokkunum og síðan alls 209 leiki í meist­ara­flokki á árunum 1962-1970. Á þessu tímabili vann KR sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil og sinn fyrsta bikarmeistaratitil í m.fl.ka., en liðið varð Íslandsmeistari öll árin á árunum 1965-1968 og bikarmeistari 1970, þegar Jón Otti lék með liðinu. Hann tók líka þátt í fyrstu leikjum KR í Evrópukeppni. Hann þjálfaði einnig yngri flokka KR um árabil og tók svo við þjálfun meistaraflokks karla í 2 keppnistímabil 1971-1973, er liðið vann bikarmeistaratitilinn bæði árin. Jón Otti var líka ötull í öðrum störfum innan körfuknattleiksdeildar KR. Hann settist í varastjórn deildarinnar strax 1960 og síðan í stjórn deildarinnar 1962 og sat þar samfleytt í 13 ár og gegndi öllum embættum innan stjórnar, en lengst af sem varaformaður, en síðast sem formaður deildarinnar 1974-1975. 


Jón Otti fékk dóm­ara­rétt­ind­i í körfuknatt­leik árið 1961 og sagðist reyndar hafa verið skikkaður á dómaranámskeið, en hann byrjaði strax að dæma leiki í öllum flokkum, frá þeim yngstu og til þeirra elstu. Eftir að hann hætti að leika með KR og þjálfa, snéri hann sér alfarið að dómgæslunni. Hann dæmdi sinn 1000. körfuknatteik í nóvember 1992 og hafði dæmt, þegar upp var staðið alls rúm­lega 1.600 leiki í m.fl. hér á landi þegar hann lagði flautuna á hilluna. Hann dæmdi einnig fjölmarga leiki á Norðurlöndum og í Evrópu og var í sérflokki körfuknattleiksdómara á Íslandi um alllangt skeið. 


Hann átti stór­an þátt í að skipu­leggja dómgæslu í körfu­knattleik og var formaður dóm­ara­nefnd­ar KKÍ í áratug á árunum 1973-83, hélt fjölda námskeiða og studdi uppbyggingu hvað dómaramál varðaði. Hlutverk dómara í körfuknattleik var ekki (og er ekki) alltaf dans á rósum og ýmislegt þurfti hann stundum að láta yfir sig ganga, sem sagt var í hita leiksins, en Jón Otti hafði samt fádæma gott lag á því að leysa úr ágreiningsmálum þannig að menn gátu við unað betur en gerist og gengur, bæði þá og síðar. Hann hélt alltaf ró sinni og gerði sér vel grein fyrir því að þó hann væri í hinum ómissandi hlutverki dómarans í körfuboltaleik, þá var hann ekki í aðalhlutverkinu.


Jón Otti hlaut gull­merki KKÍ og var val­inn körfuknattleiksdóm­ari 20. ald­ar­ árið 2001og hlaut ennfremur margar heiður­sviðkenn­ingar KR fyr­ir sín störf í þágu félagsins og körfuknattleiksíþróttarinnar, sem hann fórnaði miklum tíma fyrir lengst af ævi sinnar. En hann fékk líka margar viðurkenningar fyrir framlag sitt og var hann t.d. oft valinn besti dómari tímabilsins af bæði KKÍ, þjálfurum liða og leikmönnum. En þeir eru þeir ekki margir sem hafa skilað jafn miklu verki í þágu körfuknattleiksíþróttarinnar á Ísland. 


Eft­ir­lif­andi eig­in­kona er Jón­ína M. Aðal­steins­dótt­ir. Synir þeirra eru Aðal­steinn, Jón Otti og Hall­grím­ur. Barna­börn­in eru átta tals­ins og barna­barna­börn­in níu.


Körfuknattleiksdeild KR þakkar Jóni Otta Ólafssyni fyrir hans mikla og ómetanlega starf í þágu körfuknattleiks í KR og hér á landi og vottar fjölskyldu hans og vinum samúð sína við fráfall hans.


Blessuð sé minning Jóns Otta Ólafssonar.

Share by: