Björgólfur Guðmundsson látinn

Stór-KR-ingurinn Björgólfur Guðmundsson lést 2. febrúar síðastliðinn 84 ára að aldri.

Björgólfur ólst upp á Framnesveginum, vestast í Vesturbænum, og byrjaði ungur að æfa með KR. Hann lék með félaginu upp alla yngri flokka í mjög sigursælum árgangi sem vann fjölmarga titla fyrir KR. Í þessum hópi voru margir strákar sem seinna áttu eftir að gera garðinn frægan í meistaraflokki svo sem Þórólfur Beck, Örn Steinsen, Gunnar Felixson og Kristinn Jónsson svo einhverjir séu nefndir.



Björgólfur var alla tíð ákafur stuðningsmaður félagsins og lét ekki sitt eftir liggja við sjálfboðaliðastörf og vann mikið fyrir félagið sitt á margan hátt. Árið 1995 var hann kjörinn formaður knattspyrnudeildar og var þar formaður til ársins 1998 er hann tók við formennsku í KR sport hf. sem þá var nýstofnað m.a. að frumkvæði Björgólfs. Sem formaður knattspyrnudeildar lagði hann grunn að því þegar félagið vann árið 1999 tvöflalt, íslandsmeistaratitil bæði karla- og kvennamegin í fótboltanum eftir of langa bið. Þeirri aðkomu Björgólfs verður seint gleymt og allir KR-ingar afar þakklátir aðkomu hans að þeim glæstu sigrum.


Eftir að hann hætti formlegum störfum fyrir félagið varð hann einn af helstu bakhjörlum knattspyrnunnar hjá KR , sem hann sýndi bæði í orði og á borði og missti varla úr leik hjá liðinu og verður mikill missir af því hitta hann ekki á leikjum liðsins héðan í frá. Það er ekki ofsögum sagt að betri stuðningsmann við íþróttafélag er vart hægt að hugsa sér.


KR-ingar kveðja Björgólf með virðingu og kærum þökkum og votta aðstendum innilega samúð.


F.h. Knattspyrnufélags Reykjavíkur

Þórhildur Garðarsdóttir

Formaður KR


Share by: