Aldarafmæli Gunnars Huseby
4. nóvember 2023

Laugardaginn 4. nóv. er aldarafmæli einhvers fræknasta íþróttamanns sem við Íslandingar höfum alið, KR-ingsins Gunnars A. Huseby.
Gunnar var fyrsti Íslendingurinn til að verða Evrópumeistari í frjálsum íþróttum, með sigri sínun í kúluvarpi á EM í Osló árið 1946. Þar kastaði hann kúlunni 15,56 m, eða 30 cm lengra en næsti maður. Á Evrópumótinu í Brussel 1950, bætti hann um betur er hann varði titil sinn með glæsibrag með 16,74 m kasti, sem var nýtt Evrópumet og nær 1½ m lengra en næsti maður kastaði. Var þetta lengsta kast Gunnars á ferlinum. Á sama móti varð félagi hans Torfi Bryngeirsson Evrópumeistari í langstökki með stökki upp á 7,32 m. Þetta eru enn einu Evrópumeistaratitlar íslendinga í frjálsum íþróttum utanhúss. Gunnar og Torfi voru valdir inn í heiðurshöll ÍSÍ árið 2015.
Gunnar átti löngum við áfengisvandamál að stríða sem sem olli því að hann komst ekki til keppni á Ólympíuleikum. Um síðir tókst honum þó að vinna bug á fíkn sinni, og var eftir það dugmikill leiðbeinandi í AA-samtöknum. Gunnar lést þann 28. maí 1995.