Ógleymanlegur leikur

KR hefur allar götur verið annt um samfélagið sem það starfar í. Karlalið KR vill sýna það í verki og hefur ákveðið að halda styrktarleik til styrktar Alzheimer-samtökum Íslands. Leikurinn verður föstudaginn 13. september, en þá eigast við KR og Víkingur á Meistaravöllum kl. 17:00


Daginn áður, fimmtudaginn 12. september munum við bjóða upp á fræðslufund um heilabilun og aðstandendur í félagsheimili KR. Fræðslufundurinn hefst kl. 19:30 og er aðgangur ókeypis.


Þetta er málefni sem stendur KR-ingum nærri og viljum við með þessum leik efla umræðu um heilabilun á Íslandi og um leið safna fjármagi sem rennur til Alzheimer-samtakanna. Félagið mun leika í fjólubláum treyjum gegn Víkingi samtökunum til heiðurs.


Við vonumst til að sjá sem flesta á báðum þessum viðburðum. Leggjumst saman á eitt að auka umtal um heilabilun og þau tækifæri sem bjóðast fólki með heilabilun.


Alvotech einn af aðal styrktaraðilum KR mun einnig að leggja málefninu lið með mótframlagi.


Við hvetjum KR-inga sem og aðra að mæta á leik KR og Víkings, styðja liðin sín og ekki síst leggja þessu frábæra málefni lið.


Kaupa miða á leikinn eða leggja málefninu lið


Allir á völlinn - Við erum KR!


Spurningar og svör

  • Hvað er heilabilun?

    Heilabilun er regnhlífarhugtak yfir um 200 sjúkdóma sem hafa áhrif á minni og aðra vitsmunalega getu sem veldur skerðingu á getu einstaklinga til að sinna athöfnum daglegs lífs. Heilabilun er ekki eðlileg öldrun og er ekki öldrunarsjúkdómur. Í heilanum verða líffræðilegar breytingar og er Alzheimer algengasta orsökin.


    Talið er að á Íslandi séu um 5.000 einstaklingar með heilabilun. Í kringum þessa 5.000 einstaklinga er mikill fjöldi aðstandenda sem sjúkdómurinn hefur einnig áhrif á.

  • Hver eru helstu einkenni heilabilunar?

    Einkenni geta verið misjöfn eftir einstaklingum en hér eru nokkur algeng einkenni:

    • Gleymni sem nýlega hefur orðið vart við
    • Hlutirnir eru ekki settir á sinn stað.
    • Erfiðleikar við skipulag og flóknari athafnir daglegs lífs.
    • Erfiðleikar við að glöggva sig á tíma og rúmi, rata jafnvel ekki í áður velþekktu umhverfi.
    • Óvenju líflegir draumar og sjónrænar ofskynjanir.
    • Versnandi samhæfing og jafnvægistruflanir.
    • Erfiðleikar við tjáningu og málskilning.
    • Minnkandi félagsfærni.
    • Erfiðleikar við venjubundnar athafnir, s.s. innkaup, matargerð o.þ.h.
    • Persónuleikabreytingar.
    • Minnkandi frumkvæði.
  • Hvert á ég að leita

    Ef grunur er um að einstaklingur sé með heilabilun er fyrsta skrefið að leita til heimilislæknis. Heimilislæknir getur framkvæmt fyrstu greingingu og sé frekari rannsókna þörf vísar heimilislæknirinn á viðeigandi sérfræðing.


    Einnig er hægt að leita til ráðgjafa hjá Alzheimersamtökunum. Boðið er upp á ráðgjöf á staðnum, í fjarviðtali eða í síma. Hægt er að panta tíma í ráðgjöf í síma 520-1082, senda póst á radgjafi@alzheimer.is. Ráðgjöfin er öllum að kostnaðarlausu. Ráðgjafasíminn er opinn mánudaga til fimmtudaga kl. 09:00-15:00 og föstudaga kl. 09:00-12:00.


    Alzheimersamtökin eru staðsett á 3. hæð Lífsgæðasetursins í Hafnarfirði og vinna að hagsmunamálum einstaklinga með heilabilun og aðstandenda þeirra með stuðningi, ráðgjöf og fræðslu. Einnig að auka þekkingu og skilning stjórnvalda, heilbrigðisstétta og almennings á þeim áskorunum sem einstaklingar með heilabilun og aðstandendur þeirra glíma við frá degi til dags. Nálgast má frekari upplýsingar um samtökin á www.alzheimer.is

  • Af hverju er mikilvægt að fara í greiningu?

    Formleg greining veitir aðgang að viðeigandi þjónustuúrræðum fyrir einstaklinga með heilabilun. Einnig eru lyf sem henta í sumum tilfellum sem læknir ávísar í kjölfar greiningar.


    Rannsóknir hafa sýnt að hægt er að hægja á framgangi heilabilunar og minnka einkenni meðal annars með markvissri líkamlegri, félagslegri og vitrænni virkni. Það er því mikilvægt að formleg greining liggi fyrir svo hægt sé að fá stuðning við slíka virkni.

  • Hvaða þjónusta er í boði fyrir aðstandendur?

    Alzheimersamtökin bjóða upp á ráðgjöf fyrir aðstandendur. Boðið er upp á ráðgjöf á staðnum, í fjarviðtali eða í síma. Hægt er að panta tíma í ráðgjöf í síma 520-1082, senda póst á radgjafi@alzheimer.is. Ráðgjöfin er öllum að kostnaðarlausu. Ráðgjafasíminn er opinn mánudaga til fimmtudaga kl. 09:00-15:00 og föstudaga kl. 09:00-12:00.


    Samtökin skipuleggja og halda utan um stuðningshópa fyrir aðstandendur. Aðstandendur eru fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir en eiga það sameiginlegt að eiga ástvin heima, í dagþjálfun eða á hjúkrunarheimili.


    Hóparnir byggjast á hugmyndafræði jafningjastuðnings og er markmiðið með samverunni að hittast, spjalla og deila reynslunni. Stuðningur annarra í svipuðum aðstæðum getur bætt líðan og dregið úr streitu. Allir stuðningshópar eru auglýstir undir viðburðir á www.alzeheimer.is og eru hóparnir mismunandi eftir þörfum aðstandenda.


    Einnig bjóða Alzheimersamtökin upp á sálfræðiþjónustu fyrir aðstandendur og einstaklinga með heilabilun. Eðlilega kvikna stundum erfiðar tilfinningar hjá fólki sem greinist með ólæknandi sjúkdóm og þeirra aðstandendum. Við blasir aðlögun að nýjum, óvissum aðstæðum og nýrri framtíðarsýn. Það getur verið gott að ræða þessar tilfinningar við fagfólk, fá fræðslu og aðstoð við að finna og nýta styrkleika sína í nýjum aðstæðum. Félagsmenn Alzheimersamtakanna geta pantað viðtal við sálfræðing í síma 533 1088 eða með því að senda tölvupóst á alzheimer@alzheimer.is. Viðtalið kostar 5.000 kr.

  • Hvernig get ég minnkað líkur á heilabilun?

    Niðurstöður rannsókna sýna að hægt er að fækka framtíðartilfellum heilabilunar um 45% ef komið er í veg fyrir 14 áhættuþætti heilabilunar. Einnig hafa þessir áhættuþættir áhrif á framgang heilabilunar og því aldrei of seint að huga að þessum þáttum. En hvernig höfum við áhrif á þessa 14 áhættuþætti í okkar eigin lífi?


    1. Vera vitrænt virk á fullorðinsárum.


    2. Nýta hjálpartæki vegna heyrnarskerðingar og draga úr hávaðamengun í umhverfinu okkar.


    3. Leita aðstoðar og meðhöndlunar vegna þunglyndis.


    4. Nota hjálm eða annan búnað sem minnka líkur á höfuðáverkum í íþróttum og daglegu lífi.


    5. Stunda líkamlega hreyfingu.


    6. Ekki reykja.


    7. Stunda reglulegt eftirlit á blóðþrýstingi.


    8. Fylgjast með kólesteróli í blóði frá miðjum aldri.


    9. Viðhalda heilbrigðri líkamsþyngd.


    10. Minnkar líkur á áunninni sykursýki með því að huga að mataræði og hreyfingu.


    11. Draga úr áfengisneyslu.


    12. Draga úr félagslegri einangrun á eldri árum með því að búa með öðrum og taka þátt í félagsstarfi.


    13. Fylgjast með sjón og nýta þau hjálpartæki sem eru í boði vegna sjónskerðingar.


    14. Forðast loftmengun.



  • Hvað skiptir máli í samskiptum?

    Fólk með heilabilun getur átt í erfiðleikum með að skynja, skilja og tjá sig. Hafðu eftirfarandi í huga í samskiptum við fólk með heilabilun.


    Taktu undir - Ekki andmæla

    Dreifðu athygli - Ekki rökræða

    Finndu verkefni - Ekki gera lítið úr

    Hughreystu - Ekki skamma

    Rifjaðu upp - Manstu ekki?

    Endurtaktu - Ég var að segja ..

    Áhersla á getu - Ekki þú getur ekki

Fleiri spurningar?

Kynnið ykkur endilega samtökin á www.alzheimer.is eða hringið í síma 533 1088

Share by: