Þeim fækkar jafnt og þétt þeim sem á lífi eru og léku með gullaldarliði KR frá árunum kringum 1960. Nú síðast er það Garðar Árnason sem kvaddi okkur,
Garðar var fæddur 6. janúar 1938. Hann hóf ungur að æfa knattspyrnu með KR og þótti efnilegur. Garðar lék sína fyrstu leiki með meistaraflokki árið 1957, og átti fast sæti í liðinu frá 1958 til og með 1963, yfirleitt á miðjunni, og stýrði henni gjarnan eins og herforingi, Garðar lék alls 97 leiki með meistaraflokki KR, og skoraði í þeim 3 mörk. Meðal annars lék hann alla leikina 10 með liðinu frækna sem vann Íslandsmótið 1959 með fullu húsi stiga, þegar leikin var tvöföld umferð í fyrsta skiptið. Garðar varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari með KR: 1959, 1961 og 1963. Sömuleiðis varð hann þrisvar sinnum bikarmeistari: 1961, 1962 og 1963.
Garðar lék alls 11 landsleiki fyrir Ísland á árunum 1959-1963, og skoraði í þeim 1 mark – jöfnunarmarkið í 1:1 leiknum gegn Írum 1962. Hann átti nánast fast sæti í landsliðinu á þessum árum, ef hann var heill.
Garðar var aðeins 25 ára þegar hann lagði skóna á hilluna haustið 1963. Það var mikil eftirsjá af því, enda var hann einn albesti knattspyrnumaður Íslands á þeim tíma. Á knatttspyrnuvellinum lét Garðar mikið að sér kveða en utan hans fór ekki mikið fyrir honum. Hann starfaði lengi sem verkamaður, m.a. við höfnina, en síðan hjá Borginni við ýmis störf, mest í Laugardalnum. Undir lokin dvaldi hann á hjúkrunarheimilinu Höfða á Akranesi, þar sem hann naut góðrar aðhlynningar og lést þar þann 20. mars sl. Útför Garðars fór fram í kyrrþey.
Blessuð sé minning Garðars Árnasonar.
Ertu með góða hugmynd,
eða ábendingu?
Þú getur líka sent okkur
almenna fyrirspurn
- einelti eða kynferðisleg áreitni og ofbeldi