Á aðalfundi KR 9. maí 2007 var ný stefna KR samþykkt einróma. Hún er eftirfarandi:
Hlutverk KR
Knattspyrnufélag Reykjavíkur, KR, er samofið íslensku samfélagi, elsta íslenska knattspyrnufélagið og gegnir lykilhlutverki í íslenskri íþróttahreyfingu. KR starfrækir metnaðarfullt, faglegt og fjölbreytt íþróttastarf í knattspyrnu sem og öðrum greinum með heilbrigði og vellíðan að leiðarljósi og því markmiði að ná úrvals árangri í afreks- og uppeldisstarfi.
“Einu sinni KR-ingur allt KR-ingur” er lífssýn sem félagið ræktar meðvitað og skapar þannig mikil lífsgæði og eftirsóknarvert samfélag þar sem ríkir gleði og stolt.
Gildi KR
Í allri framgöngu, starfi og samskiptum sín á milli, við félaga og mótherja, í keppni, utan vallar og innan hafa KR-ingar eftirfarandi gildi að leiðarljósi:
Metnaður: KR-ingar eru stoltir og hafa metnað til að vera í fararbroddi framsækinna íþróttafélaga og ná framúrskarandi árangri í öllu starfi félagsins.
Fagmennska: KR-ingar nota alltaf þá bestu menntun, hæfni og þekkingu sem til er á hverjum tíma í þjálfun, stjórnun og rekstri.
Virðing: KR-ingar vinna að jafnrétti kynjanna og koma ávallt fram af virðingu hvar sem þeir eru.
Gleði: Gleði, ánægja, skemmtilegur félagsskapur og jákvæð hvatning eru lykilatriði í starfi KR.
Það er gaman að vera KR-ingur.
Framtíðarsýn – KR árið 2020
KR hefur á að skipa fjölda hæfra íþróttamanna, leiðtoga, stjórnenda og sjálfboðaliða og heldur miklum og góðum samskiptum við þúsundir skráðra félaga.
Uppeldisstarf félagsins dregur að sér nær öll börn í grunnskólum Vesturbæjar með sýnilegum árangri á vellíðan þeirra og höfðar auk þess sérstaklega til annarra barna og unglinga með mikinn metnað.
Afreksfólk KR er í fremstu röð, oftar meistarar en keppinautarnir og allt í baráttu um titla.
Aðalstöðvar KR við Frostaskjól eru hjarta Vesturbæjarins og miðstöð fjölbreyttrar starfsemi KR-samfélagsins. Keppnisumgjörð KR er sú eftirsóknaverðasta í landinu og félagið er með framúrskarandi æfingaaðstöðu víða á þjónustusvæði sínu.
Meira um markmið og leiðir, skipulag og framkvæmdaáætlun í stefnumótunarplagginu hér.
Aðalstjórn KR og stýrihópur stefnumótunar þakkar öllum þeim fjölmörgu KR-ingum sem komu með einum eða öðrum hætti að stefnumótunarvinnunni. Nú hefst næsta skref þ.e. að innleiða og framkvæma stefnuna.