U20 VERKEFNI LEU OG ÞORRA – ÞORRI Í ÚRVALSLIÐ EM

Tveir leikmenn meistaraflokka félagsins tóku þátt í U20 verkefnum íslenska landsliðsins í sumar. Lea Gunnarsdóttir ferðaðist með félögum sínum í U20 landsliði kvenna til Skopje í Makedóníu og Þorvaldur Orri Árnason fór með sínu liði til Tbilisi í Georgíu.

Stelpurnar voru með gríðarlega ungt lið í Skopje, þar sem aðeins 2 stelpur af 12 voru á eldra ári. Liðið sigraði 3 leiki af 7 á mótinu, gegn Slóvakíu, Kosovo og Króatíu og endaði í 12. sæti mótsins. Lea spilaði 3.3 mínútur að meðaltali í leik og átti sinn besta leik gegn Króatíu þar sem hún kom inn og negldi niður tveimur djúpum þristum á aðeins 9 mínútum. Lea er á yngra ári í hópnum og verður því áfram gjaldgeng með liðinu á næsta sumri.

Strákarnir héldu til Tbilisi þar sem þeir komu heldur betur á óvart og náðu sér í silfurverðlaun í B deild EM, og unnu sér þar með sæti í A deild á næsta ári. Strákarnir unnu 5 af 7 leikjum sínum, og þar á meðal frábæra sigra gegn Svíum og Finnum í 8 liða og undanúrslitum mótsins. Þetta er í annað skipti sem íslensku U20 landsliði tekst að tryggja sér sæti í A deild, en ´96-97 landsliðið gerði það sama sumarið 2016.

Þorvaldur Orri var hreint út sagt stórkostlegur í mótinu og var á endanum bæði tilnefndur sem verðmætasti leikmaður (MVP) og valinn í 5 manna úrvalslið mótsins ásamt Orra Gunnarssyni liðsfélaga sínum. Þorri endaði með 18.3 stig, 6.3 fráköst og 5.0 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann átti líklega sinn besta leik í 8 liða úrslitunum gegn Svíum, þar sem hann endaði með 28 stig, 9 fráköst og endaði leikinn með þessari fantatroðslu sem sjá má hér IMG_218417513

Lea og Þorri eru nú bæði mætt aftur í salinn á Meistaravöllum og byrjuð að undirbúa sig fyrir tímabilið.

ÁFRAM KR!