Til baka

Skíði saga deildar

Í máli og myndum

1936

Stofnun deildar

Skíðadeild KR var formlega stofnuð 1936 og tók hún þá við starfi ferðanefndar og aðalstjórnar. Fyrsta stórátakið var bygging skíðaskála í Skálafelli haustið 1936. Undir forystu Björns Þórðarsonar og Stefáns Gíslasonar (sem Stefánsmótið er kennt við) var skíðaskálinn byggður, samkvæmt teikningu Gísla Halldórssonar, af fjölda sjálfboðaliða. Myndaðist þar harður og fjömennur kjarni, allt að hundrað einstaklingar, sem héldu hópinn og lögðu grunninn að skíðaíþróttinni hjá KR.

1953 – 1955

Bruninn í Skálafelli

Skömmu eftir stríð keypti deildin bragga í Hveradölum og notaði hann fyrir skíðaskála. Var þá starfsemin á tveimur stöðum og mikill uppgangur í skíðaíþróttinni. En fljótt skipast veður í lofti og deildin missir báða skíðaskála sína í bruna á árunum 1953 og 1955. Þegar að skíðaskálinn í Hveradölum brann árið 1953 var hætt við alla frekari uppbyggingu á því svæði og starfsemin færðist alfarið yfir í Skálafell. Gamli skálinn stóð nokkuð austar og ofar í fellinu en sá sem síðar var byggður. Ýmsum þótti það ókostur að enginn akvegur var að gamla skálanum og leið frá Þingvallaveginum því löng og erfið í misjafnri færð og slæmu veðri. Bygging skálans og síðan endurbætur á honum voru því enn meiri þrekvirki en virðast mætti þegar það er haft í huga að nær allt byggingarefni höfðu menn borið á sjálfum sér á staðinn. Bruninn í Skálafelli árið 1955 var því mikið áfall fyrir félagsmenn.

1959

KR-Skálinn vígður

Á almennum félagsfundi deildarinnar 1955 var ákveðið að reisa nýjan skíðaskála í Skálafelli, mun stærri og glæsilegri en hinn fyrri, og skyldi hann standa nokkru neðar og vestar í hlíðum fellsins. Gísli Halldórsson var fengin til að teikna hinn nýja skála. Vegur var lagður frá Þingvallavegi, miðja vegu milli Svanastaða og Bugðu, og upp á svonefndar Kýrhólshæðir, þar rétt austan við skála Íþróttafélags kvenna og upp í fjallshlíðina nokkru austan við Ytri-Botna þar sem hinn nýi skáli átti að rísa. Byggingarframkvæmdir við skálann hófust sumarið 1956 voru alls unnin 637 dagsverk í sjálfboðavinnu það sumar. Flestar helgar sumarsins var fjöldi manns við störf og varð skálinn fokheldur þá um haustið. Rafmagnslína var lögð frá bænum í Stardal í mars 1958 og var skálinn notaður þá um páskana í fyrsta sinn þegar þar fór fram brunkeppni skíðalandsmótsins. Það voru stoltir skíðamenn sem vígðu KR-skálann í Skálafelli hinn 1. Mars 1959.

1961

Fyrsta skíðalyfta landsins

Árið 1961 var fyrsta og eina skíðalyfta landsins tekin í notkun í Skálafelli og gjörbreytti hún allri aðstöðu til skíðaiðkunar. Aðstaðan í Skálafelli var þá með því besta sem þekktist nema hvað stundum vantaði snjóinn. Um sumarið rak aðalstjórn sumarbúðir á svæðinu sem tókust vel og varð framhald á næstu árin. Uppbyggingin hélt áfram í Skálafelli og við lok sjötta áratugarins eru fjórar toglyftur við skálann.

1974

Uppbygging

Árið 1974 var reist ný 600 metra toglyfta við Grensgil skammt frá gamla skálastæðinu í austanverðu fjallinu. Hún var hugsuð sem fyrsta skref í uppbyggingu almenningsskíðasvæðis í Skálafelli. Önnur toglyfta jafnlöng bættist við árið 1979 auk þjónustuhúss. KR-ingar keyptu einnig snjótroðara fyrir svæðið og voru þar í fararbroddi eins og við lyftukaup. Hautið 1982 byggðu KR-ingar stærsta skíðamannvirki á Íslandi, stólalyftu 1200 metra langa sem flytur 1200 manns á klukkustund. Með tilkomu stólalyftunnar varð bylting í aðstöðu til skíðaiðkunar hjá höfuðborgarbúum. Lyfturnar í Skálafelli gátu nú flutt á þriðja þúsund manns á klukkustund.

1997 –

Deildin og rekstur

Rekstur skíðasvæðisins í Skálafelli varð stöðugt erfiðari fyrir deildina. Skuldir vegna stólalyftu margföldust í verðbólgu níunda áratugarins og það reyndist illmögulegt að reka almenningsskíðasvæði í samkeppni við sveitarfélögin á Bláfjallasvæðinu. Á þessum árunum, þ.e. 1970 til 1990, var kjarni manna sem unnu mikið og öflugt sjálfboðaliðastarf við uppbyggingu í Skálafelli og lögðu á sig ómælda vinnu og fyrirhöfn til að halda þar öllu gangandi. Viðræður við Reykjavíkurborg um nýjar rekstrarleiðir hófust 1988 og varð niðurstaðan sú að Reykjavíkurborg keypti mannvirki skíðadeildarinnar á almenningsskíðasvæðinu haustið 1990 og tók við rekstri þess. Með breyttum rekstrarforsendum batnaði staða deildarinnar til þess að byggja upp barna og unglingastarfið og á það hefur verið lögð megináhersla á undanförnum árum. Árið 1997 byggðu KR-ingar lítinn þjónustuskála við bílastæðin og var hann formlega tekin í notkun 15 febrúar 1998. Skálinn hefur þjónað sem miðstöð fyrir æfingakrakka deildarinnar og skíðaskólann. Skálinn er þegar orðinn of lítill enda er mikil aðsókn af öðrum skíðaiðkendum, einkum fjölskyldufólki. Skíðadeildin hefur löngum verið ein af styrkustu stoðum KR. Ekki aðeins vegna þess að þegar best hefur gengið hefur hún átt nokkra af bestu skíðamönnum Íslands heldur fyrir félagslegan þroska og styrk. KR hefur ávallt getað treyst á öfluga skíðadeild í starfi félagsins sem bæði hefur alið upp keppnisfólk en ekki síður hefur deildin verið til stuðnings fyrir aðra félagsmenn sem stunda skíði sér til skemmtunar. Skíðadeild KR stendur í þakkarskuld við það fólk sem á liðnum áratugum byggði upp starf deildarinnar og þess vegna er lögð áhersla á að sinna hinum almenna skíðamanni samhliða íþróttastarfinu. Deildin leggur metnað sinn í að efla skíðaíþróttina sem keppnisíþrótt og fjöldi efnilegra unglinga æfir skíði í Skálafelli og ætlar sér að ná langt. Árangur á mótum er þó ekki aðalmarkmiðið heldur að efla félagslegan þroska iðkenda enda hefur það margsannast að sá sem ræktar garðinn sinn af alúð fær yfirleitt góða uppskeru.