Samstarf KR og Aberdeen FC.

Samstarf KR og Aberdeen FC.

Á dögunum var greint frá nýjum samstarfssamningi KR og skoska liðsins Aberdeen. Eflaust spyr KR-ingurinn sig hvað er fengið með slíku samstarfi og að hverju er stefnt. Af hverju Aberdeen frekar en önnur félög. Við skulum skoða Aberdeen og hvað felst í samstarfinu.

Aberdeen

Aberdeen er frá samnefndri borg á norðurströnd Skotlands. Félagið er stofnað 1903 og hefur frá öndverðu verið eitt af stærstu félögum landsins. Félagið stendur í skugganum af risunum frá Glasgow, Rangers og Celtic, en er þriðja sigursælasta félag landsins með 19 titla. Félagið hefur fjórum sinnum orðið Skotlandsmeistari, síðast 1985 undir stjórn Alex Ferguson. Þá hefur Aberdeen tvisvar sinnum orðið Evrópumeistari, oftast allra skoskra liða.

Fyrstu evrópuleikir Aberdeen voru 1967 en þá mættu þeir einmitt okkur KR-ingum í tveimur leikjum. Það er óhætt að segja að yfirburðir skotanna hafi verið miklir en leiknum í Reykjavík lauk með 4-1 sigri þeirra en útileikurinn endaði 10-0. KR-ingar hafa verið duglegir að sækja skotana heim og fjölmargir KR-ingar sem fóru á sínum yngri árum í æfinga og keppnisferðir til Aberdeen.

Aberdeen stendur á miklum tímamótum. Nýverið keyptu Bandarískir fjárfestar hlut í félaginu, þeir hinir sömu og eiga Bandaríska liðið, Atlanta United. Miklir fjármunir hafa verið lagðir í félagið sem tók m.a. í gagnið fullkomna æfingaaðstöðu ekki alls fyrir löngu. Þá munu innan tíðar hefjast framkvæmdir á nýjum og stórglæsilegum velli skammt frá þar sem Pittoidre heimavöllur liðsins stendur í dag.

Miklar vonir eru bundar við liðið þetta tímabilið eftir vonbrigði síðast árs. Leikmannahópurinn er sterkur og gera spár ráð fyrir því að liðið endi í 3-4 sæti. Fyrr í sumar seldi félagið sinn efnilegasta leikmann Calvin Ramsey til Liverpool. Akademía þeirra er þekkt fyrir að framleiða öfluga leikmenn en alla jafna leika fjölmargir heimamenn með liðinu.

Kvennalið félagsins var sett á laggirnar 2011 og leikur í efstu deild.

Samstarfið

Samstarf KR og Aberdeen er tvíþætt. Annars vegar snýr það að markaðsstarfi félaganna og hins vegar er það á fótboltalegum forsendum.

Markaðsteymi Aberdeen er geysiöflugt og hefur félagið vakið mikla athygli fyrir nýstárlega nálgun í markaðsstarfi sínu. Þeir munu aðstoða okkur KR-inga við markaðssetningu félagsins og hvernig eigi að nálgast nýja og eldri samstarfaðila. Þannig munum við stækka verulega tengslanet félagsins og opna á nýja mögulega markaði. Þá munu samstarfsaðilar beggja félaga eiga kosta á að nýta sér samstarfið eins og kostur er.

Íslensk knattspyrna stendur öðrum löndum aftar þegar kemur að markaðssetningu og leikdagsupplifun. Tekjur KR í dag eru brot af því sem mögulegt er. Þekkingin er ekki til staðar hér á landi og við ætlum með samstarfinu að nýta okkur allar mögulegar leiðir til þess að gera betur.

Samstarf félaganna er einnig knattspyrnulegs eðlis. Þannig munu efnilegir leikmenn og þjálfara eiga þess kost á að halda utan til æfinga og viða að sér þekkingu.

Þá mun Aberdeen standa fyrir knattspyrnuskóla hér á landi og verður sá fyrsti væntanlega haldinn í októbermánuði komandi. Þjálfarar úr akademíu þeirra munu halda utan um námskeiðið sem verður á KR svæðinu. Þá stendur KR til boða að fá leikmenn að láni frá Aberdeen í meistaraflokka félagsins.

Nokkrir leikmenn hafa leikið með báðum félögum í gegnum tíðina. Helst ber að nefna þá David Winnie og Jim Bett. Jim Bett var lykilmaður í liði Aberdeen á níunda áratug síðustu aldar en hann lék með KR sumarið 1994 og varð m.a. bikarmeistari með okkur. Synir hans Calum og James léku báðir með yngri flokkum KR og Aberdeen. David Winnie lék með Aberdeen frá 1991-1995 og var lykilmaður í vörn þeirra. Winnie lék með KR 1999-2000. Þá var Winnie aðstoðarþjálfari Péturs Pétussonar sumarið 2001 og tók við liðinu á miðju sumri og stýrði okkur út tímabilið. Winnie var okkur KR-ingum innan handar við gerð samstarfssamninginn en hann starfar í dag sem lögmaður í London.

Hallur Hansson leikmaður meistaraflokks í dag var í akademiu Aberdeen frá 2008-2011 og lék einn leik með aðalliði félagsins. Þá var Gunnar Einarsson fyrrum leikmaður okkar og núverandi þjálfari þriðja flokks í akademíu þeirra um stund.

Samstarfssamningur KR og Aberdeen er til tveggja ára.

Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR