Mfl. kvenna: Jafntefli og sigur í æfingaleikjum

Mfl. kvenna: Jafntefli og sigur í æfingaleikjum
KR hefur leikið tvo æfingaleiki að undanförnu gegn Pepsi-deildarliðum. KR gerði 1-1 jafntefli við ÍBV og vann Aftureldingu 3-2.

KR og ÍBV léku á gervigrasvelli KR laugardaginn 1. febrúar. Leiknum lauk 1-1 og skoraði Sigríður María Sigurðardóttir (mynd til hægri) mark KR í byrjun síðari hálfleiks. Hún fékk frábæra stungusendingu inn fyrir vörn ÍBV frá Láru Rut Sigurðardóttur, lék á markmann ÍBV og skoraði í autt markið.

Á sunnudag, 9. febrúar, lék KR við Aftureldingu í Kórnum. KR vann 3-2 eftir að hafa leitt 2-1 í leikhléi. Lára Rut komst inn fyrir vörn Aftureldingar og vippaði boltanum yfir markvörðinn sem var kominn full framarlega. Boltinn virtist vera á leiðinni framhjá markinu en Sonja Björk Jóhannsdóttir kom þá askvaðandi og smellti boltanum í autt markið. Stefanía Pálsdóttir skoraði svo laglegt mark eftir sending frá Sonju. Afturelding brotnaði ekki við að fá á sig tvö mörk, minkaði muninn í fyrri hálfleik og jafnaði svo um miðjan síðari hálfleik. Sigga Mæja skoraði sigurmark KR rétt fyrir leikslok. Þrátt fyrir sigurinn lék KR liðið langt undir getu í þessum leik.

Föstudaginn 14. febrúar leikur við KR við Fylki í lokaleik riðlakeppni Reykjavíkurmótsins. Félögin hafa bæði tryggt sér sæti í undanúrslitum og verður því leikið um efsta sætið í riðlinum. Leikurinn fer fram í Egilshöll og hefst kl. 19.