Matti fyrir leikinn gegn Stólunum: „Allir orðnir spenntir að spila aftur“

Matti fyrir leikinn gegn Stólunum: „Allir orðnir spenntir að spila aftur“

KR-ingar eiga heimaleik gegn Tindastóli á morgun, fimmtudag, en þetta er fyrsti leikur liðsins síðan í byrjun október eftir að deildin var sett á ís. Við tókum stöðuna á Matthíasi Orra Sigurðarsyni, leikmanni meistaraflokks karla fyrir leikinn gegn Stólunum.

Það hlýtur að vera mikið gleðiefni að við megum byrja að keppa aftur, eftir rúmlega þriggja mánaða hlé? Hvernig hefur undirbúningurinn gengið þennan mánuð sem liðið hefur mátt æfa saman?
„Já held við séum allir orðnir spenntir að byrja að spila aftur, þótt að það sé án áhorfenda og aðstæður auðvitað skringilegar. Undirbúningurinn hefur gengið þokklega vel, höfum verið nokkuð fáliðaðir en annars hefur verið mikil bæting hjá liðinu milli daga.“

Það hafa orðið mannabreytingar á leikmannahópi okkar, Gospic og Stumbris leituðu annað þegar að allt fór í frost hér, það gefur augaleið að meðalhæð liðsins lækkar nokkuð við það. Hvernig líst þér á þá áskorun í komandi leikjum?
„Held að okkur líst bara ágætlega á það að finna aðrar leiðir til að vinna með núverandi leikmannahóp. Við erum með mikið af leikmönnum sem geta skorað boltanum þannig ég hef litlar áhyggjur af því að liðið setji stig á töfluna. Varnarlega þurfum við að bregðast við og finna aðrar leiðir til að dekka stóra, öfluga leikmenn undir körfunni. Við erum með nokkra valmöguleika til þess og vonir okkar eru að þær munu duga á meðan leikmannahópurinn er jafn lágvaxinn og raun er. Það eru fullt af möguleikum sem við fáum einnig með þann fjölda af bakvörðum sem við erum með og planið er að nýta okkur þá yfirhönd á fimmtudaginn.“

Við fáum Tindastól í heimsókn annað kvöld, þessi lið hafa háð ófáar rimmurnar á síðustu árum. Hvernig líst þér á að mæta þeim?
„Mér líst bara rosa vel á það. Er minna að hugsa um að þetta sé Tindastóll heldur að fá að spila aftur og leggja þá vinnu sem liðið hefur verið í á borðið. Sjá hvar við stöndum og fá betri upplýsingar um hvað gengur vel og hvað ekki.“

Nú eru áhorfendur ekki leyfðir, verður erfitt að gíra sig upp í þessa leiki án áhorfenda?
„Nei á allavega alls ekki von á því. Auðvitað væri betri að vera spila fyrir framan sitt fólk en ánægjan á að fá að spila mun örugglega leyfa leikmönnum að gleyma áhorfendaleysinu fljótt.“

Svona að lokum, það er mikil leikjadagskrá framundan, þið spilið 9 leiki núna á tæpum mánuði áður en það kemur landsleikjahlé. Mikil veisla fyrir sjónvarpsáhorfendur, en hvernig verður þetta fyrir leikmenn?
„Já það er smá erfitt að svara þessu. Held að það sé nokkuð ljóst að leikmenn eru óvanir svona álagi og hvað þá eftir að hafa spilað einn leik á seinustu 10-11 mánuðum. Það er erfitt að herma eftir ákefð alvöru leiks og þar með þeirri þreytu sem fylgir þeim. Þar sem að ég er svo ánægður að fá að spila ætla ég að láta það í friði að ræða þá vankanta sem fylgja þessari stífu dagskrá af leikjum. Ég vona þó að leikmenn komist í gegnum þetta þokkalega áfallalaust og ekki mikið af alvarlegum meiðslum verði vegna mikils álags.“


Í beinni útsendingu á KRTV

Leikur KR og Tindastóls fer fram fimmtudaginn 14. Janúar klukkan 19.15. Leikurinn verður í beinni útsendingu á KRTV og hefst útsendingin klukkan 19:00. Mánaðaráskrift að KRTV kostar 1.990 krónur en einnig er hægt að kaupa stakan leik (pay-per-view) á 1.990 krónur.

Styrktarmiðar
Við minnum einnig á að hægt er að kaupa styrktarmiða á leikinn en einn heppinn miðahafi gæti unnið gjafabréf frá Barion Bryggjunni, en með því að kaupa styrtkarmiða styrkir þú rekstur deildarinnar, en það blasir við að tekjufall er mikið á meðan áhorfendur eru ekki leyfðir né hægt er að hafa BBQ í félagsheimili KR fyrir heimaleiki.

Hægt er að kaupa styrktarmiða hér eða í gegnum Stubb appið. Vinningshafi verður tilkynntur daginn eftir leik.