Til baka

Yngri flokkar

Æfingatafla

Þjálfarar

Skráning iðkenda

Knattspyrnufélag Reykjavíkur

Markmannsþjálfun

Markmannsæfingar yngri flokka er í höndun:

Gísli Þór Einarsson

Uppeldisstefna knattspyrnudeildar KR

Uppeldishlutverk knattspyrnudeildar KR
Knattspyrnudeild KR mun á næstu árum leggja vaxandi og markvissari áherslu á uppeldis- og forvarnaþátt knattspyrnuiðkunar í yngri flokkum félagsins. Með því vill knattspyrnudeildin axla hluta þeirrar ábyrgðar sem hvílir á herðum allra þeirra sem sinna börnum og unglingum í leik og starfi. Við leggjum áherslu á að þróa gott samstarf við foreldra um velferð barna þeirra og lítum á starf okkar sem stuðning og viðbót við uppeldisstarf heimilanna. Einnig leggjum við áherslu á samstarf við skólana í hverfinu, félagsmiðstöðina og aðra sem starfa með æskufólki í Vesturbænum. Markmið með uppeldisstarfinu eru:
– Að ala upp bestu knattspyrnumenn landsins.
– Að KR-ingar séu heilbrigðir og vel undirbúnir undir lífið.
– Að flestir Vesturbæingar verði virkir KR-ingar alla ævi.Leiðir sem við hyggjumst fara að þessum markmiðum:
– Öflugt barnastarf í samvinnu við skólana.
– Unglingastarf sem gefur öllum tækifæri til að vera með og leggur áherslu á grunnatriði og félagslegan þroska.
– Heilsteypt og samræmd þjálfun allra aldursflokka og keppnisstefna sem leggur meiri áherslu á uppeldi og þroska leikmanna en sigur.
– Umhyggja fyrir hverjum einstaklingi.
– Miklar kröfur til þekkingar og hæfni þjálfara.

Gott samstarf við foreldra er mikilvægt
Við hjá knattspyrnudeild KR leggjum mikla áherslu á gott samstarf við foreldra þeirra barna og unglinga sem stunda æfingar og keppni á vegum deildarinnar. Þetta samstarf tekur til þátttöku foreldra í æfingum, keppni og öðru starfi á vegum deildarinnar; ásamt góðu flæði upplýsinga til foreldra.
Um þátttöku foreldra í íþróttaiðkun barna sinna.

Við hvetjum foreldra til að sýna íþróttaiðkun barna sinna jákvæðan áhuga, vera hvetjandi varðandi ástundun þeirra, veita þeim skýran ramma hvað varðar æfingasókn, fylgja þeim á kappleiki og líta við á æfingum. Slík hvatning er börnunum mikils virði og eykur líkurnar á að þau haldi áfram að stunda íþróttir. Við vörum hins vegar við beinni gagnrýni á frammistöðu barnsins, það er hlutverk þjálfarans að leiðbeina því um það sem betur má fara í leik þess.

Foreldrar og þjálfarar eru fyrirmyndir.
Á leikjum óskum við eftir að foreldrar hvetji liðið jafnt í meðbyr sem mótbyr, komi ekki með aðfinnslur, hvorki á leik liðsins í heild né einstakra leikmanna, verði börnum sínum fyrirmynd í því að taka ósigri af æðruleysi og sigri hrokalaust, sýni andstæðingum og dómurum kurteisi og aðstoði þjálfarana sé þess óskað.

Fræðsla og upplýsingar.
Við munum leitast við að fræða foreldra um áherslur á æfingum, keppni framundan og áherslur varðandi mataræði, hvíld, svefntíma og aðra þætti heilbrigðs lífernis. – Í þessu skyni munum við halda fræðslu- og umræðufundi að vori og hausti fyrir foreldra hvers aldursflokks.

Samráð foreldra og þjálfara um velferð barnanna.
Knattspyrnudeild KR trúir því að knattspyrnuiðkun stuðli að jákvæðum lífsstíl barna og unglinga. Knattspyrna er holl hreyfing og góð skemmtun. Með knattspyrnuiðkun læra börn tillitssemi, sjálfsaga og virðingu og njóta samveru við jafnaldra undir leiðsögn fullorðinna. Þjálfarar Knattspyrnudeildar KR fylgja þjálfunaráætlun sem tekur tillit til aldurs og þroska iðkenda. Samvinna við foreldra er stór þáttur í starfi þjálfara. Knattspyrnudeildin leggur áherslu á skynsamlegt jafnvægi leiks og keppni í knattspyrnuiðkun barna og unglinga. Þjálfarar Knattspyrnudeildar KR vilja sýna hverjum iðkanda virðingu og umhyggju. Þjálfarar leggja áherslu á hrós og hvatningu og leiðbeina um hegðun og samskipti á æfingum og í keppni. Íþróttamannsleg framkoma er mikilvægt leiðarljós í starfi Knattspyrnudeildar KR. Við munum kappkosta að upplýsa foreldra um mat okkar á börnum þeirra og hafa samband við foreldrana ef upp koma tilvik sem valda okkur áhyggjum.

Styðjum ástundun barnanna.
Við leggjum áherslu á að draga úr brottfalli í knattspyrnunni og leggjum því áherslu á góða samvinnu við foreldra. Ástæður þess að börn og unglingar hætta að iðka knattspyrnu geta verið af ýmsum toga og í sumum tilvikum ekkert áhyggjuefni (t.d. þegar áhugamálin breytast). Þegar barn/unglingur hættir hins vegar í íþróttum og engin krefjandi áhugamál koma í staðinn er ástæða til að bregðast við. Samráð foreldra og þjálfara getur oft ráðið úrslitum í þessu efni.

Þjálfarar vilja samvinnu
Í sumum tilvikum kann foreldrum að finnast erfitt að tala beint við þjálfara barnsins, t.d. hafi þau eitthvað út á hann/hana að setja. Þjálfarar knattspyrnudeildar KR munu hins vegar kappkosta að taka vel öllum ábendingum foreldra og koma til móts við óskir þeirra, sé þess nokkur kostur.

Skilaboð til iðkenda
Knattspyrnudeild KR leggur áherslu á að fræða iðkendur um mikilvægi heilbrigðis og hollustu. Þessir þættir eru órjúfanlegir knattspyrnunni og geta skipt sköpum ef árangur skal nást. Geysilega mikilvægt er að iðkendur skipuleggi vel hvenær þeir borða og hversu oft þeir borða á dag. Þá er ekki síður mikilvægt samhengið á milli æfinga/leikja og þess hvenær er matast. Skyndibitamatur svokallaður (hamborgarar, pitsur, o.fl.) er ekki rétta fæðið til að bjarga svengd iðkenda. Ef hámarksárangur á að nást við æfingar og keppni þá verður að neyta rétta fæðisins sem veitir iðkendum aukna orku og hjálpar þeim að hlaða forðabúrið að loknu erfiði. Iðkendur verða einnig að átta sig á samhengi hvíldar og góðrar frammistöðu. Líkaminn þarf góða hvíld eftir erfiða æfingu og/eða keppni. Langar vökunætur gera ekkert annað en að draga úr afkastagetu einstaklingsins og auka meiðslahættu til muna. Því er mikilvægt að iðkendur hvílist vel milli æfinga/leikja svo líkaminn verði reiðubúinn undir komandi átök. Heilbrigður lífstíll er ekki síður mikilvægur hluti knattspyrnunnar en æfingin sjálf. Rétt matarræði, góð hvíld og útilokun vímuefna geta því skipt sköpum fyrir árangur og frammistöðu iðkanda í knattspyrnu og lífinu sjálfu.