Til baka

Saga knattspyrnudeildar

Í máli og myndum

1948

Stofnun deildar

Knattspyrnudeild KR var stofnuð árið 1948 þegar starfi félagsins var skipt í átta deildir. Aðrar greinar sem voru stundaðar innan KR árið 1948 voru fimleikar, frjálsar íþróttir, glíma, handknattleikur, hnefaleikar, skíðaíþróttir og sund.

Árið 1948 var starf knattspyrnunnar í KR bundið við meistaraflokk, 1. flokk og þrjá yngri flokka karla. Eftir stofnun 7. flokks kvenna haustið 2004 er knattspyrna iðkuð í þrettán yngri flokkum stráka og stelpna auk meistaraflokka karla og kvenna og eldri flokka karla og kvenna. Knattspyrnudeild starfrækir einnig íþrótta- og leikjaskóla á sumrin í samstarfi við körfuknattleiksdeild.

1984

KR-Völlur

Meistaraflokkur karla hóf að leika heimaleiki sína á KR-velli árið 1984. Aðstaða fyrir áhorfendur var engin árið 1984 en fljótlega hófst vinna við að bæta úr því. Fyrir Íslandsmótið 1987 voru tilbúin stæði fyrir 1.700 manns og stúkan var fullbyggð í núverandi mynd fyrir mótið árið 1993. Bætt aðstaða fyrir áhorfendur sagði strax til sín og undanfarin níu ár hefur KR fengið fleiri áhorfendur á heimaleiki sína en önnur félög.

2000

Félagssvæðið

Á félagssvæðinu eru einnig tveir æfingavellir – Húsvöllurinn og Flyðrugrandavöllurinn – gervigrasvöllur með flóðljósum, lítill gervigrasvöllur, tvö íþróttahús og félagsheimili. Auk þess hefur KR haft æfingaaðstöðu neðan Starhaga frá árinu 2000.

1993

KR Klúbburinn

KR-klúbburinn var stofnaður árið 1993, sama ár og stúkan var fullbyggð. Markmið hans er að efla og auka tengsl hins almenna stuðningsmanns við félagið, efla samheldnina og veita leikmönnum stuðning með öflugri starfsemi innan vallar sem utan.