
Gleðifregnir af Meistaravöllum – samið við 11 leikmenn!
Körfuknattleiksdeild KR hefur samið við 11 leikmenn um að leika með meistaraflokki kvenna á næstu leiktíð. Þetta er sérstaklega mikið gleðiefni þar sem að um ræðir unga og efnilega leikmenn sem allir hafa leikið með yngri flokkum KR.
Lea Gunnarsdóttir hefur gert tveggja ára samning við KR. Lea er fædd árið 2003 og var lykil leikmaður í liði meistaraflokks kvenna á síðasta tímabili og átti flott tímabil þar sem hún skoraði 6,1 stig að meðaltali í leik og tók 4,9 fráköst. Lea var einnig valin í 17 manna hóp u20 ára landsliðsins fyrir komandi verkefni í sumar.
Anna María Magnúsdóttir, Anna Margrét Hermannsdóttir og Fjóla Gerður Gunnarsdóttir gerðu allar tveggja ára samning við KR. Þær hafa verið gífurlega mikilvægir leikmenn KR síðastliðin ár, jafnt í meistaraflokki sem og yngri flokkum félagsins. Það er því mikið gleðiefni að þær hafi endurnýjað samninga sína við KR og taki áfram þátt í þeirri uppbyggingu sem meistaraflokkur hefur verið í síðastliðin ár. Þær hafa allar spilað með yngri landsliðum undanfarin ár og voru allar þrjár valdar í u18 ára landsliðið fyrir komandi verkefni sumarsins.
Frá vinstri;
Rakel Vala Björnsdóttir, Anna Margrét Hermannsdóttir, Lea Gunnarsdóttir, Anna María Magnúsdóttir og Fjóla Gerður Gunnarsdóttir
KR samdi einnig við þær Steinunni Evu Sveinsdóttur, Hildi Arneyju Sveinbjörnsdóttir, Rakel Völu Björnsdóttur og Kolfinnu Margréti Briem sem allar hafa leikið með KR alla tíð. Þær gerðu tveggja ára samning við félagið og hafa verið hluti af okkar öfluga yngri flokka starfi ásamt því að hafa leikið með meistaraflokki á síðustu leiktíð.
Helena Haraldsdóttir gerði eins árs samning við KR en hún kom til félagsins frá Vestra árið 2020 þar sem hún lék upp alla yngri flokka. Helena hefur bæði spilað með u16 og u18 ára landsliðum Íslands.
Einnig hefur KR samið við tvo gífurlega efnilega leikmenn sem þrátt fyrir ungan aldur voru viðloðnir meistaraflokk á síðustu leiktíð. Þetta eru þær Arndís Rut Matthíasdóttir, fædd 2007, og Rebekka Rut Steingrímsdóttir, fædd 2008. Bæði Arndís og Rebekka voru valdar í yngri landsliðin fyrir komandi verkefni í sumar, Arndís í u16 ára landslið og Rebekka í u15. Það er því ljóst að hér á ferðinni eru gríðarlega efnilegir leikmenn.
Efri röð frá vinstri; Kolfinna Margrét Briem og Arndís Rut Matthíasdóttir.
Neðri röð frá vinstri; Steinunn Eva Sveinsdóttir, Hildur Arney Sveinbjörnsdóttir og Rebekka Rut Steingrímsdóttir.
Á myndina vantar Helenu Haraldsdóttur.
Ellert formaður KKD KR segir: ,,Það er einstaklega ánægjulegt og mikilvægt að semja við alla þessa ungu leikmenn. Þetta eru allt mikilvægir leikmenn, sem og félagsmenn, og í KR höfum við alltaf lagt áherslu á það að árangurinn hefjist í yngri flokka starfinu. Við erum mjög spennt að sjá þessa leikmenn halda áfram að vaxa og dafna og vinna að þeirra sem og okkar sameiginlegu markmiðum bæði í afreksstarfinu og elstu stigum yngri flokkanna.“
Ljóst er að það er spennandi vetur framundan á Meistaravöllum með þessum frábæru leikmönnum. Áfram KR!