Formlegt samstarf KR og Gróttu

Þann 13. desember sl. skrifuðu formenn KR og Gróttu, ásamt bæjarstjóra Seltjarnarnesbæjar og borgarstjóranum í Reykjavík undir yfirlýsingu þess efnis að sett verði af stað vinna við að skoða frekara samstarf og skipulagningu íþróttastarfs fyrir börn og unglinga í sveitarfélögunum. KR og Grótta hafa í gegnum tíðina átt gott samstarf og nú þegar er fyrir hendi samstarf t.d. í 2.,3. og 4. flokki kvenna í knattspyrnu og 3. flokki karla í handbolta. Félögin er sammála um, að það megi enn bæta og efla þetta samstarf til hagsbóta fyrir félögin og íbúa sveitarfélaganna. Enn fremur munu íþrótta- og tómstundaráð sveitarfélaganna vinna að þessu máli með félögunum. KR hlakkar til samstarfsins við nágranna okkar og vini í Gróttu. Þess má geta að á sama tíma var skrifað undir samning á milli Reykjavíkurborgar og Seltjarnarness um byggingu fimleikahúss.

gylfi_dagur

Mynd: Frá undiritun samningsins

Frá vinstri: Elín Smáradóttir formaður Gróttu, Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Gylfi Dalmann Aðalsteinsson formaður KR.