Borðtennisdeild KR er ein elsta borðtennisdeild landsins, stofnuð sumarið 1969.
Þar voru ungir frumkvöðlar, þeir Sveinn Áki Lúðvíksson og Pétur Ingimundarson sem voru helstu hvatamenn að stofnun deildarinnar. Sveinn Áki Lúðvíksson var fyrsti formaður deildarinnar og skipaði deildin sér strax í fremstu röð íþróttagreinarinnar á Íslandi.
Borðtennissamband Íslands var síðan stofnað
Borðtennissamband Íslands var síðan stofnað 1972 og var Sveinn Áki einnig formaður sambandsins í fjölmörg ár. Fyrstu Íslandsmeistaratitlar KR unnust svo vorið 1971 þegar Margrét Rader sigrar í einliðaleik kvenna og í tvíliðaleik með Sigrúnu Pétursdóttur. Gunnar Gunnarsson og Sigrún vinna einnig tvenndarleikinn.
19 ár
Frá árinu 1976 og fram til 1994 sigrar KR óslitið í 1.deild karla í borðtennis. Er þetta lengsta samfellda sigurganga (19 ár) eins félags í nokkurri íþróttagrein á Íslandi svo undirritaður viti til.
Það er erfitt að taka ákveðna leikmenn og þjálfara fram fyrir aðra þegar ritað er um sögu deildarinnar en þó má telja upp helstu burðarása deildarinnar gegnum tíðina: Finnur Snorrason, Hjálmar Aðalsteinsson, Gunnar Jóhannsson, Tómas Guðjónsson, Hjálmtýr Hafsteinsson, Tómas Sölvason, Jóhannes Hauksson, Kristinn Már Emilsson, Guðmundur Maríusson, Jón Kristinn Jónsson, Kjartan Briem, Kristján Viðar Haraldsson og Hlöðver Þorsteinsson geta óhikað allir talist til helstu burðarása deildarinnar með þeim Sveini Áka og Pétri Ingimundar nefndum hér að ofan. Þessir menn hafa haft ólíku hlutverki að gegna, og á misjöfnum tímabilum en hafa allir átt það sameiginlegt að hafa unnið einstaklega ósérhlífið starf, en um leið ánægjulegt að uppbyggingu og einstökum árangri deildarinnar. Annarra nafna eins og Arnar Franzsonar, Peter Nilsson, Hrafns Árnasonar og Valdimars Hannessonar ber einnig sérstaklega að geta meðal þeirra fjölmörgu annarra sem lagt hafa deildinni lið í starfi og keppni.
Saman höldum við ótrauð áfram.