Amsterdam maraþon

KR-skokk var stofnað vorið 2012 og eru þjálfarar þess þau Ásdís Káradóttir, Margrét Elíasdóttir og Rúnar Reynisson. Þetta er félagsskapur fólks í Vesturbænum sem hittist þrisvar í viku til þess að hlaupa saman undir góðri leiðsögn reyndari hlaupara. Sú hugmynd kom snemma fram að skemmtilegt væri að fara saman í hlaupaferð. Það var svo nú á haustdögum sem tæplega 50 manna hópur frá KR-skokk hélt til Hollands og tók þar þátt í Amsterdam-maraþoni. Ferðalög sem þessi þarf að undirbúa vel og hófst sá undirbúningur í janúar 2014. Stofnuð var ferðanefnd sem sá um skipulag ferðarinnar og þjálfarar settu saman æfingaáætlun sem miðaði að því að undirbúa hlauparana fyrir þau átök sem framundan væru. Í Amsterdam er boðið uppá heilt maraþon (42 km), hálfmaraþon (21 km) og 8 kílómetra hlaup og því gátu allir fundið vegalengd við sitt hæfi.

Æfingar fara fram þrisvar í viku hjá KR-skokk og sumir bættu jafnvel við fleiri æfingum þegar nær dró ferðinni. Á laugardagsmorgnum var lagt snemma af stað í löngu hlaupin og þeir sem lengst fóru hlupu yfir 30 km. Að því loknu hittist svo hópurinn í Vesturbæjarlauginni á eftir og slakaði á. Undir lok undirbúnings voru meiðsli eitthvað farin að gera vart við sig hjá nokkrum hlaupurum og útlit því misgott en úr því rættist. Haldinn var fundur stuttu fyrir ferðina þar sem þjálfarar miðluðu öðrum af reynslu sinni en að mörgu er að huga í undirbúningi langra keppnishlaupa. Það var svo glaðbeittur og vel undirbúinn hópur sem lagði af stað til Amsterdam föstudaginn 17. október.

Dvalið var á hóteli sem er staðsett í þriggja kílómetra fjarlægð frá Ólympíuleikvangnum þar sem hlaupið átti að hefjast og byrjaði hópurinn á því að nálgast mótsgögn og skoða sig um á keppnisstað. Haldin var sýning á ýmsum varningi og skipuleggjendur stórra keppnishlaupa frá öðrum borgum í Evrópu kepptust við að fanga athygli þátttakenda. Ljóst er að nóg er í boði fyrir þá sem hafa áhuga á því að ferðast til annarra landa og taka þátt í langhlaupum. Laugardaginn notaði hópurinn til þess að slappa af, einhverjir fóru í skoðunarferðir og siglingu um Amsterdam en allir höfðu það að leiðarljósi að spara kraftana fyrir átökin sem biðu á sunnudeginum.

Síðdegis á laugardag safnaðist hópurinn saman á pastastað í miðborg Amsterdam til þess að „karbólóda“ eins og hlauparar tala um. Stemningin var góð í hópnum og fólk almennt spennt fyrir morgundeginum. Um kvöldið sendu mótshaldarar út hitaviðvörun fyrir hlaupið en verðurspáin hljóðaði upp á 21° hita og sól. Hlauparar voru því beðnir um hafa varann á, hlaupa skynsamlega og þeir sem væru veikir fyrir beðnir um að halda sig heima. Hópurinn var því við öllu búinn að morgni sunnudags.

Fyrstir til þess að leggja af stað um morguninn voru maraþonhlauparar en 8 km hlaupið, sem gárungar í hópnum kölluðu „áttþon“ til virðingarauka fyrir þessari styttri hlaupalengd, komu þar í kjölfarið. Hiti og sól reyndu á maraþonhlauparana þó að eitthvað hefði dregið úr spánni frá deginum áður. Áhorfendur röðuðu sér upp við brautina og víða sáu hljómsveitir og tónlistarhópar um að magna upp stemninguna. Upp úr hádegi hófst hálfmaraþon, hellidembu gerði við rásmarkið en úr veðri rættist þegar hlaupið hófst. Á heildina litið var árangur KR Skokk mjög góður í Amsterdam en meðlimir þess urðu efstir Íslendinga í öllum þremur hlaupunum. Í heilu maraþoni skilaði Hannes Hrafnkelsson sér í mark á tímanum 03:00:53 og Margrét Elíasdóttir á 03:26:04, í hálfmaraþoni hljóp Benedikt Sigurðsson á tímanum 01:28:32 og í 8 kílómetrum hljóp Ágúst Sæmundsson á tímanum  39:52 og Guðrún Dröfn Gunnarsdóttir á 47:32.

Andrúmsloftið í Amsterdam eftir hlaupið var skemmtilegt. Um alla borg mátti sjá fólk sem bar verðlaunapeninga um hálsinn og þá kom berlega í ljós hversu gríðarlegur fjöldi þátttakenda var og hversu mikinn svip keppnin setur á borgina. Alls voru keppendur í maraþoninu rúmlega 44 þús. frá um 93 þjóðlöndum en þar af voru yfir hundrað Íslendingar. KR-ingar söfnuðust saman á steikarstaðnum Gauzhos um kvöldið til þess að samfagna og að sjálfsögðu báru allir medalíu um hálsinn. Mikil gleði og samkennd var í hópnum sem náð hafði markmiði sínu og almenn ánægja var meðal allra með ferðina í heild sinni.

Kristrún Halla Helgadóttir

Þorfinnur Skúlason

Myndir 1

Myndir 2