Hæfileikahópur í taekwondo

Í dag, mánudaginn 1. september, fara fimm krakkar úr taekwondo í KR á æfingu með nýjum landsliðsþjálfara Íslands í poomsae. Krakkarnir voru valdir úr afar stórum hóp sem sóttist eftir að komast í hæfileikahóp Taekwondosambands Íslands en þar fá iðkendur að æfa undir stjórn landsliðsþjálfara. Hópurinn er valinn til þess að undirbúa unga og hæfileikaríka einstaklinga undir að keppa og sigra á alþjóðlegum mótum síðar meir.
Álfdís Freyja Hansdóttir, Snorri Bjarkason, Gestur Gunnarsson, Dagur Brabin Hrannarsson og Sólon Walker Brooksson eru ungu KR-ingarnir sem voru valin síðastliðinn föstudag í þennan fína hæfileikahóp. Deginum áður var haldin stór og mikil úrtökuæfing þar sem 85 manns höfðu skráð sig í úrtökur fyrir þennan hóp og landsliðshóp. Eftir þriggja tíma æfingu og frammistöðumat fóru landsliðsþjálfari og aðstoðarlandsliðsþjálfari niður og fóru yfir videó, myndir og athugasemdir sínar og völdu í hópana. Áður nefndir KR-krakkar stóðu sig einstaklega vel og eru vel að því komin að vera valin í þennan úrvalshóp. Nokkrir í viðbót voru svo alveg við þröskuldinn og munu með metnaði, elju og auka æfingum komast í liðið á næsta ári.
taekw2 Taekw1
Á myndunum má sjá annars vegar úrtökuhópinn og hins vegar hæfileikahópinn.
Að lokum má svo geta þess að báðir pommsae þjálfarar KR voru valdir í landsliðshópinn og munu því geta miðlað af reynslu sinni þaðan til iðkenda í Vesturbænum.
Til hamingju með flottan árangur!